Hönnunarmars í Epal 2024 – sýnendur

Á Hönnunarmars í Epal verður til sýnis hlaðborð af nýrri og spennandi íslenskri hönnun ásamt því að við kynnum nýja vörulínu sem unnin er út frá baðmenningu Ísland. Á sýningunni má finna áhugaverða hönnun eftir fjölbreyttan hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og sumir einnig á erlendri grundu.

Á meðal sýnenda eru: Arkitýpa, Aska bio Urns, bybibi, Dýpi, Elísa, Guðmundur Lúðvík, Hlynur Atlason, Kula by Bryndis, RÓ, Salún, Sigurjón Pálsson ásamt því að til sýnis er endurgerð á stól eftir Hjalta Geir.

BAÐ

Í ár kynnir Epal nýja vörulínu sem unnin er út frá baðmenningu Íslands. Heiti vörulínunnar er BAÐ sem unnin er í samstarfi við Flothettu, Ihanna Home, Margréti Jónsdóttur leirlistakonu og Sóley Organics.

Verkefnið BAÐ er samstarfsverkefni fjögurra íslenskra hönnuða fyrir Epal. Áherslan er á þróun á sígildum og fáguðum vörum sem hafa tengingu við okkar séríslensku baðmenningu. Baðmenning Íslands á sterka og langa sögu og hefðir. Epal telur vera vöntun á íslenskum vörum sem byggja á þessari sögu og gerir baðupplifun betri og innihaldsríkari fyrir heimamenn sem og erlenda ferðamenn. Þessa vegna var leitað til nokkurra sérfróðra hönnuða sem hafa þekkingu og reynslu hver á sínu sviði.

Hönnuðirnir sem koma að verkefninu eru: Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir fyrir vörumerkið IHANNA HOME, Margrét Jónsdóttir leirlistakona, Unnur Valdís Kristjánsdóttir fyrir vörumerkið Flothettu og Sóley Elíasdóttir fyrir vörumerkið SÓLEY.

 

Sýningin Feik eða ekta?

Hugverkastofan, Epal og React – alþjóðlegt samstarfsnet fyrirtækja gegn fölsunum, bjóða til sýningar á Hönnunarmars dagana 23.-27. apríl, í verslunum Epal í Skeifunni og á Laugarvegi, í tilefni af Alþjóðahugverkadeginum 26. apríl. Markmiðið er að vekja athygli á því af hverju við ættum að velja ekta vörur, virða hugverkaréttindi og forðast að kaupa eftirlíkingar. Hægt verður að skoða sýnishorn af fölsuðum vörum og bera saman við ekta fyrirmyndir og taka þátt í getraun um hvaða vörur eru ekta og hverjar ekki. Í verðlaun er ekta hönnunarvara í boði Epal.

Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd : sýnendur

ByBibi

Á meðal sýnenda á Hönnunarmars í Epal er BYBIBI sem hefur frá árinu 2013 haft að leiðarljósi að skapa vörur sem fela í sér gæði, einfaldleika og margþætt notagildi. Hönnuðurinn Sigríður Hjaltdal Pálsdóttir hefur unnið með postulín og sótt efnivið í íslenska náttúru ásamt því að endurnýta ýmislegt hráefni sem fellur til við aðra framleiðslu t.a.m. steypukjarna og afgangssteina

Salún 

Salún er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í heimilistextíl. Salún er óður til hins einstaka, íslenska salúnavefnaðar en djörf munstrin byggja á hefðum og reglum sem salúnvefnaðurinn krefst. Menningararfur er Salún mikilvægur og við hönnun og framleiðslu á vörunum er lögð áhersla á að upphefja og sameina íslenskan menningararf sem samtvinnast í textíl-og sundlaugamenningu þjóðar.

Bryndís Bolladóttir 

Listakonan & hönnuðurinn Bryndís Bolladóttir sameinar skúlptúrgerð og endurnýtingu ullar & tvinnar það saman við verkfræðilega virkni. Kula by Bryndis er hönnunarfyrirtæki Bryndísar Bolladóttur. Markmið þess er að skapa kyrrð með náttúrlegum efnum og skýrskotunum. Leiðarstef Kula by Bryndis er nýtni og heilbrigð tengsl við umhverfið. Með rannsóknum og prófunum hefur Bryndísi tekist að þróa einstaka afurð.

Sigurjón Pálsson 

Sigurjón Pálsson húsgagnaarkitekt sýnir nýja fígúru, Sólon sem gerður er úr íslenskri gæru, ásamt stafnum Sir Sör. Þekktastur er Sigurjón fyrir Vaðfuglana sem framleiddir eru af danska hönnunarfyrirtækinu Normann Copenhagen og njóta mikilla vinsælda.

Arkitýpa

ARKITÝPA er samstarf tveggja arkitekta; Ástríðar Birnu Árnadóttur FAÍ og Karitas Möller FAÍ.

“Á sýningunni á Hönnunarmars 2024 leitumst við eftir að fullgera hið arkitýpíska form, innan þess tilraunakennda leiksviðs sem hringrásarefnið gefur; að vekja löngun til þess að taka það með sér heim, til áframhaldandi ljóðrænna upplifana í samspili rýmis og efnis. Við höldum áfram að kanna hið arkitýpíska formtungumál og það hvernig formheimur hlutarins rímar við endurnýjuð efni og leikandi form, í ljóðrænu samtali við rýmisvitundina.

Hversdagslegir hlutir hljóta æðri tilgang þegar endurheimt efni og fljótandi form fléttast saman í ljóðrænan rýmisskúlptúr.”

 

Aska Bio Urns 

Aska Bio Urns duftkerin eru tileinkuð sjálfbærum lausnum til minningar fyrir bæði fólk og gæludýr. Duftkerin, sem eru niðurbrjótanleg og unnin úr endurunnum pappír og draga úr úrgangi og varðveita auðlindir. Þau eru gerð úr sellulósa (beðma) úr pappa og dagblöðum og eru tætt niður án líms eða eiturefna, sem tryggir hinn lífræna, endurvinnanlega og niðurbrjótanlega eiginleika. Skuldbinding okkar er til grænni framtíðar og býður upp á leið til að heiðra ástvini af virðingu á sama tíma og við stuðlum að heilbrigðari veröld. Framleiðsluferli duftkerjanna endurspeglar hringrás náttúrunnar og felur í sér hollustu okkar til sjálfbærrar framleiðslu.

Í sinni nýju línu kynnir íslenska hönnunarfyrirtækið RÓ, RÓSEMI legubekk með RÓ ullardýnu og RÓ Flóru hugleiðslu púðum innblásnum úr fegurð hráefnana og litum úr umhverfinu. 

RÓ byggir hönnun sína á rannsóknum á nýtingu náttúruleg, staðbundin og endurnýjanleg efni; Íslensk ösp, jurtaliti og marglit ull, í samhljóm við hringrásarhagkerfi, fagurfræði og vellíðan fyrir fólk og plánetu.

Elísa

Nýtt, en gamalt, íslenst leikfang fer í framleiðslu. Leikfangið Elísa er bæði leikfang og hönnunargripur

Það er lítið gat í hönnunarsögu Íslands. Leikfangið “Elísa” er nytjalist sem var hönnuð 1961 af listakonunni Elísu Steinunni Jónsdóttur. Fátt var um íslensk leikföng á þeim tíma og í stað þess að kaupa léleg influtt leikföng þá fór hún að hanna sín eigin fyrir börnin sín.  Þannig varð leikfangið sem er kallað í höfuð hennar, Elísa, til.  Lét hún búa til nokkur prufueintök en leikfangið fór aldrei í framleiðslu. Eitt af þessum prufueintökum er til sýnis í Epal á sýningu þeirra fyrir Hönnunarmars.

Núna er verið að vinna í því að setja leikfangið í fyrsta skipti í framleiðslu og kynna það fyrir íslenskum börnum og foreldrum þeirra.  Leikfangið er ætlað börnum frá 12 mánuðum til 3.5 árs aldurs og verður það unnin úr sjálfbærum við og umhverfisvænni málningu sem er örugg fyrir ung börn að leika sér með.

Sérstaða verkefnis

Þetta verkefni er einstakt því leikfangið Elísa er áhugaverð viðbót við hönnunarsögu Íslands. Sú saga er auðvitað frekar stutt og tengt tveimur mönnum sem eru óbeint þekktir fyrir leikfangahönnun – Manfreð Vilhjálmsson og Dieter Roth. Elísa Steinunn var á svipuðum tíma með leikfangið sitt og breytir því sögunni aðeins. Núna er áhugi og eftirspurn eftir íslenskri hönnun að aukast – og því er verið að nýta þetta tækifæri til að koma á framfæri þessu óþekkta en merkilega verkefni í hönnunarsögunni okkar.

Verslunin Epal hefur sýnt verkefni okkar áhuga, vill styrkja það og selja Elísu í verslunum sínum. Sýnir það að við erum með áhugaverða vöru í höndunum – vöru sem er ný en á gömlum grunni, er unnin með umhverfisvænum og sjálfbærum efnum, unnin af konu og er ákveðið týnt púsl í hönnunarsögu Íslands.

 

Dýpi

Dypi ~ islensk kalkmálning Dypi er umhverfisvæn kalkmálning úr vottaðri náttúruafurð – kalkþörungum úr Arnarfirði á Vestfjörðum. Dýpi er fyrsta Íslenska kalkmálingin sem er unnin úr vottuðu Sjavarkalki. Dýpi er lifandi kalkmáling sem myndar skemmtilegt samspil milli þess sem málar og rýmis. Áferð er styrt eftir penslum og hreyfigum við málun flatar.

Árný er arkitekt og Sirrý er frumkvöðull. Verkefnið er unnið í samstarfi við Sérefni og Íslenska Kalkþörungarfèlagið.

Guðmundur Lúðvík 

Timbur er nýr bekkur sem húsgagnahönnuðurinn Guðmundur Lúðvík hannaði fyrir danska húsgagnaframleiðandann Carl Hansen & Søn.

Hjalti, borðstofustóll, 1963

Hjalti Geir Kristjánsson (1926-2020) húsgagnaarkitekt hannaði borðstofustólinn fyrir KS húsögn árið 1963. Stóllinn naut mikilla vinsælda og má finna víðsvegar á íslenskum heimilum. Stóllinn var framleiddur í um tíu ár eftir að hann kom fyrst fram á sjónarsviðið og er nú kynntur aftur til sögunnar af Epal.

Endurgerð útgáfa stólsins úr eik, með bólstraðri setu, verður framleiddur af Epal haustið 2024.

„Ég hef stundum sagt að stóllinn fyrir húsgagnaarkitektinn sé eins og súpan fyrir kokkinn. Það er mikill vandi að útbúa stól. Þegar ég var að þróa þennan þá hef ég ábyggilega búið til ég veit ekki hvað mörg eintök áður en lokaútgáfan varð til. Það þurfti að stækka þetta og breikka hitt. Það þarf mikla yfirvegun þangað til að það er komið í þetta form eins og hér er.“ Hjalti Geir, viðtal í Morgunblaðinu, 28.02.16.

Epal Gallerí – Matti og Maurún, Hulinn heimur íslenskra maura

Á Hönnunarmars í Epal Gallerí, Laugavegi 7 opnar „Matti og Maurún – Hulinn heimur íslenskra maura”, sýning og útgáfa myndlýstrar barnabókar um íslenska maura.
“Á sýningunni skoðum við furðuverk mauraríkisins, rýnum í myndheiminn sem Laufey Jónsdóttir skapaði fyrir bókina og sjáum íslenska maura stíga á stokk í iðandi maurabúi. Rithöfundurinn og líffræðingurinn Marco Mancini hefur rannsakað maura á Íslandi frá árinu 2019 og deilt undrum mauraheimsins í fjölmiðlum, á vefsíðunni „Maurar á Íslandi” og nú í þessari fallega myndskreyttu bók.”
Þetta er önnur barnabók myndhöfundarins og grafíska hönnuðarins Laufeyjar Jónsdóttur. Fyrri bók hennar, „Milli svefns og Vöku”, hlaut tilnefningu til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar fyrir myndskreytingar og viðurkenningu frá Félagi íslenskra teiknara í flokknum myndlýsingasería.
„Leggðu af stað í hugljúft ævintýri með Maurúnu og Matta til að komast í kynni við ótrúlegan heim leynilegrar mauranýlendu á íslenskum leikskólavelli. Taktu þátt í sérstakri vináttu þeirra sem er fyllt gleði, forvitni og sögum sem leiða í ljós mikil stórmerki undir fótum okkar.“
Saga og enskur texti: Marco Mancini
Teikningar og hönnun: Laufey Jónsdóttir
Íslensk þýðing: Andreas Guðmundsson Gähwiller
Sérfræðingur í kennslufræði: Caterina Poggi
Útgefandi: Bókafélagið
Styrktaraðilar bókar: Þróunarsjóður námsgagna og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Styrktaraðili viðburðar: Reykjavíkurborg
Opnunartímar sýningarinnar á HönnunarMars og Barnamenningahátíð 24 – 28. apríl:
Mið: 18:00 – 20:00
Fim – Lau: 10:00 – 18:00
Sun: 11:00 – 18:00
Sýningin opnar miðvikudaginn 24. apríl kl.18:00 í kjallara Epal á Laugavegi 7. Sýningin stendur frá 24. apríl til 8. maí.

HönnunarMars í Epal dagana 23. – 27. apríl

Epal tekur þátt í HönnunarMars sextánda árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun.
Til sýnis verður áhugaverð hönnun eftir fjölbreyttan hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og sumir einnig á erlendri grundu.
Opnunarhóf 23. apríl frá klukkan 17:00 – 19:00.
Sýnendur:
Arkitýpa
Aska bio Urns
bybibi
Dýpi
Endurgerð á stól eftir Hjalta Geir
Feik eða ekta?
Guðmundur Lúðvík
Hlynur Atlason
Kula by Bryndis

Salún
Sigurjón Pálsson
Ægir Reykjavík
Í ár kynnir Epal nýja vörulínu sem unnin er út frá baðmenningu Íslands. Heiti vörulínunnar er BAÐ sem unnin er í samstarfi við Flothettu, Ihanna Home, Margréti Jónsdóttur leirlistakonu og Sóley Organics.
Hönnuðir verða á staðnum á eftirfarandi tímum:
Föstudag á milli kl.15-18 og laugardag milli kl. 12-16.
Epal hefur haft að leiðarljósi frá stofnun árið 1975 að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi með því að velja hönnun og gæðavörur sem skara fram úr. Epal hefur alla tíð stutt íslenska hönnuði og lagt sig fram um að hjálpa þeim við að koma verkum sínum á framfæri og í framleiðslu og hluti af því er þátttaka í HönnunarMars.
Sjáumst á HönnunarMars í Epal Skeifunni.
Athugið. Lokað verður fimmtudaginn, Sumardaginn fyrsta.

Epal Gallerí – Spirit Portraits eftir Veru Hilmarsdóttur

Verið innilega velkomin á sýningu Veru Hilmarsdóttur, Spirit Portraits, sem opnar í Epal Gallerí fimmtudaginn 4. apríl klukkan 16 – 18, þar sem Vera sýnir brot úr safni teikninga sem hún hefur unnið að á síðustu þremur árum. Sýningin stendur til 21. apríl.

Um listakonuna:

Vera Hilmarsdóttir (1992) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2018.
Á öðru ári sínu í bachelor námi sótti Vera ljósmynda- og listnám í The University of Applied Science Europe í Berlin, þar sem hún svo bjó og starfaði sem fyrirsæta og listakona til 2020. Segja má að verk Veru skiptist í teikningar og málverk. Á þessari sýningu sýnir hún safn teikninga þar sem mörkin milli huga og anda mætast í óslitnum flæðandi línum.
Vera Hilmarsdóttir (1992) graduated with a bachelor’s degree in art from the Iceland Academy of the Arts in 2018. During her second year of bachelor studies, Vera attended photography and art studies at The University of Applied Science Europe in Berlin, where she then lived and worked as a model and artist until 2020. We can say that Vera’s work is divided into drawings and paintings. In this exhibition, she presents a collection of drawings where the boundaries between mind and spirit meet in uninterrupted flowing lines.