„Það eru 25 ár síðan við byrjuðum að búa og sömuleiðis 25 ár síðan við fórum að mynda heimili fólks. Búskapurinn og ljósmyndunin hafa haldist í hendur. Á öllum þeim stöðum sem við höfum búið höfum við komið okkur vel fyrir og liðið vel. Íbúðirnar hafa verið ólíkar, við höfum byggt hús, búið í útlöndum, verið í nýju og gömlu. Í gegnum árin höfum við alltaf myndað heimili okkar til að eiga minningar.
Myndirnar á sýningunni eru brot af þeim og árunum 25. Þær sýna þróun búskapar og breytingar sem verða á útliti og yfirbragði. Við höfum alltaf sagt að það að mynda heimili fólks sé að skrásetja samtímann og segja sögur. Við, og sérstaklega Gunnar, höfum myndað svo mörg heimili á þessum árum að við höfum ekki tölu á þeim. Með því að taka saman myndir af okkar heimili opnum við dyrnar fyrir ykkur eins og aðrir hafa gert fyrir okkur.
Verið velkomin, Halla Bára og Gunnar.“



