Ingimar Einarsson hannaði mottu fyrir Moooi – nú fáanleg í Epal

Ingimar Einarsson er listamaður og hönnuður búsettur í London. Ingimar hannaði teppalínuna Crystal fyrir Moooi Carpets sem upphaflega var kynnt í Stokkhólmi árið 2019 og hefur síðan þá verið til sölu um allan heim og er nú fáanleg í Epal.

Ingimar útskrifaðist frá Chelsea College of Art and Design í London með BA-gráðu í myndlist árið 2011 með stoppi í Hangzhou í Kína árið 2009 í skiptinámi. Það var í Kína þar sem sem Ingimar hóf að ljósmynda arkitektúr með áherslu á að fanga flókin smáatriði og þróaði þar klippimyndastíl sem hefur einkennt mörg verk hans. Að námi loknu stofnaði Ingimar sitt eigið stúdíó og skapaði verkið Capital Series á árunum 2011-1016 þar sem hann ferðaðist til 52 landa á 5 árum þar sem hann myndaði arkitektúr í öllum höfuðborgum Evrópu.

Hvernig kom það til að þú hannaðir teppalínu fyrir Moooi? Moooi hafði samband við mig árið 2018 varðandi hönnun á teppi. Ég lagði undir þá hugmynd af verkinu Crystal sem þeir voru hrifnir af og báðu um fleiri liti. Ég kom þá með tillögu af nokkrum litaútgáfum og þeir völdu að lokum brúna, rauða og fjólubláa. Crystal teppið kemur í tveimur mismunandi formum, í stærð 228×287 cm en einnig fáanlegt sem tepparenningur sem hentar vel fyrir hótel og stærri rými. Samstarfið hefur gengið mjög vel og eru teppin fáanleg í yfir 15 löndum og fengið umfjöllun um allan heim.

Crystal teppið er öðruvísi verk en ég var vanur, ég vinn mest í prentverki og hef verið að vinna verk eftir sérpöntunum og hef þar verið heppinn með að fólk treystir mér og þekkir til þess sem ég hef gert og hefur hvert verkefni oft leitt af sér það næsta. Ég hannaði til dæmis teppi fyrir einkaheimili í Bahrein… sem ég get þó ekki deilt mynd af.

Teppi er áhugavert listform en oft eru allir veggir á heimilum orðnir yfirfullir af listaverkum og getur gólfið því verið enn einn flöturinn undir list sem hentar vel fyrir heimili með takmarkað veggpláss.

Stóð alltaf til að verða myndlistarmaður? Ég ætlaði nú alltaf að verða töframaður… Pabbi minn Einar Ingimarsson er arkitekt og það lá fyrir að ég vildi starfa við eitthvað skapandi. Námið mitt var mjög opið og gat ég valið hvað sem ég vildi gera. Ég heillaðist fyrst af innsetningarlist og hélt ég færi í þá átt en svo fór ég að skoða borgarskipulög sem heilluðu og það var í skiptináminu sem ég hóf að ljósmynda arkitektúr og þróaði þar minn klippimyndastíl.

Myndir að neðan : The Capital Series 

Hvernig viðheldur þú sköpuninni? Ég vinn oft í tölvu sem getur stundum verið leiðigjarnt og ég er því oft að skissa til hliðar, eitthvað sem á ekkert að verða að neinu … en þær skissur urðu þó eitt sinn notaðar sem grunnur að nýju verki. Að búa í London býður upp á óendanlega möguleika varðandi innblástur og hvað er hægt að gera, skoða og sjá. Ég og kærastan mín eru dugleg að ferðast og förum á Basel listahátíðina og Feneyjatvíæringinn til dæmis. Mér finnst mikilvægt að vinna ekki heima heldur mæta í stúdíóið og umkringja mig skapandi fólki sem er mikilvægt, það er hvetjandi að sjá aðra vera skapandi.

Anima motta, sérpantað verk fyrir heimili listaverkasafnara í London. Listaverkið samanstendur af 6 skönnuðum blýantsteikningum á pappír sem eru settar saman með orðinu sál á öllum tungumálum sem safnarinn talar.

Hvaða íslensku listamenn heldur þú upp á? Þar má nefna Karl Kvaran, Ragnar Axelsson, Eyborgu Guðmundsdóttur, Guðmundu Andrésdóttur og Ólaf Elíasson sem hefur verið mikill innblástur.

Hvað er svo á döfinni? Núna er það sumarfrí, en svo er ég að endurhugsa stúdíóið mitt ásamt kærustunni minni Rezzan sem er vöruhönnuður, en þær hugmyndir eru enn á grunnstigi og ekki orðið tímabært að segja frá!

 

Við þökkum Ingimar fyrir spjallið og bendum áhugasömum á að hægt er að skoða Crystal teppið hjá okkur í Epal Skeifunni og fá frekari upplýsingar.