Jólaborðið í Epal Skeifunni : Reykjavík Trading co.

Jólaborðið í Epal Skeifunni vikuna 28. nóvember – 4. desember er glæsilegt. 

Anthony Bacigalupo og Ýr Káradóttir eru hönnuðirnir á bak við Reykjavík Trading Co. Þau sérhæfa sig í handgerðum gæðavörum fyrir heimilið og vinna aðallega með náttúruleg efni eins og leður, við og ull. Náttúran er helsti innblástur þeirra og jarðlitir eru ríkjandi í allri þeirra hönnun. Anthony og Ýr hafa hannað fyrir Dill, Kex og Skál ásamt því að hafa unnið með mörgum öðrum veitingastöðum, hótelum og kaffihúsum. Þau hjónin reka litla búð sem kallast The Shed (Skúrinn) en þar eru þau einnig með vinnuaðstöðu.

Fyrir jólaborðið völdu þau að stilla upp kaffiboði þar sem þau erum bæði miklir sælkerar og finnst fátt betra en að gæða sér á ljúffengum kökum og ilmandi kaffi í góðum félagsskap. Kaffiboð eru að þeirra mati ómissandi hluti af aðventunni og góð leið til að eiga gæðastund með fjölskyldu og vinum.
Litlu kopar rammarnir á borðinu sem sýna hvar hver og einn situr má nálgast í The Shed. Rammarnir eru gerðir til þess að hengja upp á vegg en í hverjum ramma eru þurrkuð laufblöð sem þau hafa safnað á ferðalögum sínum. Ljósaserían gefur hátíðlegt yfirbragð en hana má einnig finna í The Shed.

www.reykjaviktrading.com
@rvktradingco