Hönnunarmars 2020 // Pastelpaper

Epal tekur þátt í HönnunarMars tólfta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Pastelpaper er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

Ný kortalína Pastelpaper sem heitir Colors of Iceland verður frumsýnd á HönnunarMars í Epal. Colors of Iceland er eins og nafnið gefur til kynna einskonar litaprufur fyrir Ísland. Ísland er eins og við öll vitum dásamlega fallegt og hefur að geyma einstaka liti frá náttúrunnar hendi. Kortalínan samanstendur af 10 kortum sem tákna 10 staði, staðirnir voru litgreindir og saman eru kortin litapalletta fyrir Ísland. Það mun svo án ef bætast fleiri staðir við í framtíðinni enda af nóg af taka þegar kemur af áhugaverðum stöðum á Íslandi. Kortin eru prentuð á 400gr pappír, framleidd á Íslandi og eru góð leið til að bæta smá lit í lífið.

Linda Jóhannsdóttir mun einnig sýna aðra nýja línu sem heitir 2020, línan varð til í samgöngubanninu þar sem Linda ákvað að mála eina mynd á dag, sem var seld á slaginu þrjú á Instagram síðu Pastelpaper. Myndirnar urðu 40 talsins og fengu færri mynd en vildu. Nýja línan Pastelpaper er unnin út frá þeim myndum, myndirnar verða í A4, eru áritaðar og númeraðar og verða í afar takmörkuðu magni.”