Hönnunarmars 2020 // Arkitýpa

Epal tekur þátt í HönnunarMars tólfta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Arkitýpa er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

Á sýningunni verða sýndar ARKITÝPUR eða rýmisgögn, sem eru hannaðir hlutir unnir upp úr arkitektónískum teikningum og formrænnri hugmyndavinnu, með sjálfbærni hráefna að leiðarljósi.

Nýskapandi arkitektúr og endurnýtt hráefni úr byggingariðnaði sameinast í afurðum ARKITÝPU. ARKITÝPA er samstarf tveggja arkitekta, Ástríðar Birnu Árnadóttur FAÍ og Karitas Möller FAÍ.
ARKITÝPUR eru hannaðir hlutir með það í huga að auka á samspil milli upplifunar þeirra og nýtingu rýmisins sem þeir eru staðsettir í. Þetta geta verið byggingarhlutar eða húsgögn sem skapa nýja sýn, gæði og upplifun í rýminu. Leikið er með skala, form, liti, efni og samsetningar. Arkitýpur eru leikandi teikningar sem taka á sig form og eru leiðandi afl í sköpun og tilurð hlutanna.
ARKITÝPA hlaut nýverið rannsóknar- og þróunarstyrk Hönnunarsjóðs til þess að þróa áfram frumgerðir að hönnun, en frumstig þeirrar hönnunar var sýnd á Hönnunarmars 2019. Sýningin samanstendur af afrakstri þeirrar þróunar- og rannsóknarvinnu, þar sem áhersla verður lögð á endurnýtt byggingarefni, og hins vegar forhönnun að rýmisgögnum unnum úr endurnýttum vegstikum. ARKITÝPA hóf samstarf við Vegagerðina á Nýsköpunarmóti nýverið, um hugmyndavinnu að því hvernig væri hægt að endurnýta vegstikur, en mikið af þeim fellur til á ári hverju sem væri upplagt að gefa nýtt form og hlutverk. Hið óvænta samspil milli vegstika og rýmisgagna mun lifna við í nýju samhengi og samsetningu, þar sem ólíkum efnum með ólíkt hlutverk verður teflt saman – og útkoman verður líkt og að stíga inn í þrívíða teikningu þar sem litir, strúktúrar og form yfirtaka rýmið.