DEMO loftljósið – gamalt handverk endurvakið

Með DEMO loftljósinu er verið að endurvekja íslenskt handverk sem var nokkuð algengt á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Það hafa ekki varðveist mörg eintök af þessum fallegu ljósum en framleiðendur DEMO loftljóssins hafa sótt inblástur í þau.

„Við lífguðum upp á útlitið með litum, styrktum grindina með messinghringjum og einfölduðum útfærsluna, án þess að missa sjónar á útliti fyrirmyndarinnar,“ segja framleiðendur DEMO loftljóssins, þau Dagný Elsa Einarsdóttir og Magnús Ólafsson húsgagnasmíðameistari en Dagný Elsa lýkur brátt námi í húsgagnasmíði við Hönnunar -og Handverksskólann.

Þetta er fyrsta samstarfsverkefni þeirra en bæði eru áhugafólk um varðveislu og endurvakningu á íslensku handverki og húsgögnum frá árunum 1940 til 1960 en þau voru oft hönnuð og unnin af iðnaðarmönnum. Á þessum árum ríkti mjög sérstök verkstæðismenning, aðallega í Reykjavík og Akureyri, sem þau Dagný Elsa og Magnús telja vert að gefa gaum.

DEMO loftljósið er fáanlegt í ýmsum litum en einnig ólitað. Snúran er tauklædd og fáanleg í mörgum litum, bæði einföld eða vafin.