Vinningshafar í samkeppni Epal og Paper Collective 2022

Litrík listasýning opnar í Epal Gallerí þann 19. ágúst í samvinnu við danska fyrirtækið Paper Collective. Sýnd verða vinningsverk úr samkeppni sem haldin var í sumar á meðal skapandi Íslendinga. Útkoman er einstakt úrval af verkum eftir íslenska hönnuði, ljósmyndara og listamenn og munu vinningsverkin nú verða framleidd af Paper Collective. Sýningin stendur yfir dagana 19.08. – 02.09. í Epal Gallerí, Laugavegi 7.

Það gleður okkur að tilkynna vinningshafann sem hlaut 1. sæti í samkeppninni með verkin Nature is Female og Bubble Gum, og var það Berglind Rögnvaldsdóttir, ljósmyndari sem hlýtur í verðlaun 200.000 kr. ásamt þóknun af sölu (Royalty samningur), andvirði a.m.k. 100.000 kr. 

Berglind Rögnvaldsdóttir (f.1985) ljósmyndari er fædd og uppalin í Reykjavík, en hefur starfað sl.7 ár í Osló. Eftir útskrift frá Bilder Nordic school of Photography árið 2018 hefur Berglind tekið þátt í stórum listahátiðum í Noregi; Collective Fashion Art, Fushion Oslo og Nordic Light Festival. Berglind hefur á sínum ferli mikið unnið með verk tengd konum og hvernig samfélagið kyngerir og hlutgerir þær frá unga aldri. Verk hennar hafa ákveðið kvenlegt yfirbragð, og feminíska rödd. Einnig notar hún náttúruna sem myndlíkingu til að mæta kynjapólitík samtímans.

“Verkin sem ég vann fyrir Epal & Paper Collective keppnina eiga það sameiginlegt að snúa að hlýnun jarðar og hlutgervingu kvenkyns líkamanns. Innblásturinn kom frá íslensku náttúrunni og kommentakerfinu á samfélagsmiðlum”.

Við mannfólkið erum að eyðileggja jörðina, sem við oftar en ekki köllum ,,móðir náttúru” og tölum um í kvenkyni. Samlíking sem í nútíma vestrænum heimi á rætur sínar að rekja í okkar kerfisbundna og inngróna feðraveldi. Þetta hefur bæði kynferðislega og kúgandi tengingu, ýtir undir áframhaldandi umhverfiseyðingu og nauðgunarmenningu og má rökræða að sé einkar lýsandi fyrir samband samfélags okkar við annars vegar náttúruna og hinsvegar kvenkyns líkamann.

Þetta hefur sömuleiðis sterka tengingu við þá hugmynd að konur séu enn þann dag í dag ,,lægra settar“ og eitthvað sem eigi að leggja undir sig, rétt eins og náttúran sjálf sem er ávallt gengisfelld og látin víkja fyrir óþrjótandi frekju mannkynsins með tilheyrandi óhugnalegum afleiðingum sem við stöndum frammi fyrir í dag.”

“Verkin eru unnin úr samsettum ljósmyndum af landslagi og nærmyndum af kvenkyns líkamanum. Þar sem þau eru hlutgerð og sameinuð í eina heild, sem deilir sama ákalli um hjálp.”

2. sætið hlaut Hjörtur Matthías Skúlasson með verkið Dansari og fær í verðlaun samning við Paper Collective varðandi sölu á verkinu (Royalty).

Allt frá því að Hjörtur flutti til Reykjavíkur frá æskustöðvunum á Rauðasandi í Vesturbyggð til að nema við Listaháskóla Íslands hefur hann fetað sinn eigin veg um órætt landslag sem liggur á mörkum myndlistar og hönnunar.

Verk hans einkennast af náttúrulegum efnum og handbragði fortíðar sem honum hefur tekist að færa til nútímans með nýsköpun sinni og einlægum áhuga á því sammannlega í tilverunni. Hjörtur hefur þróað með sér afar persónulegt myndmál þar sem snertifletir mannlegar hegðunar eru oftar en ekki í aðalhlutverki. Hjörtur hefur að udanförnu verið að vinna saumaða skúlptúra sem eru nokkurskonar dúkkur. Þær vinnur hann út málarastriga, ull og steinleir.

Á meðan heimsfaraldurinn Covid19 hélt okkur heljargreipum með sínum takmörkunum og einangrun þá kom upp söknuður vina. Söknuður fyrir að eiga góða stund með vinum lyfta glösum og stíga dans. Dansinn var bannaður í heimsfaraldrinum maður mátti aðeins dansa einn.

3. sætið hlaut Kristín Sigurðardóttir með verkið Kyrr og fær í verðlaun samning við Paper Collective varðandi sölu á verkinu (Royalty).

Kristín Sigurðardóttir, vöruhönnuður, útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Kristín hefur þar að auki bakgrunn í m.a. textíl og myndlist og hefur tekið þátt í samsýningum á Íslandi, Hollandi og Shanghai. Hún er í dag búsett í Svíþjóð.

“Undanfarið hef ég að m.a. unnið að hönnunarverkefnum sem snúa að efnisrannsóknum tengdum endurvinnslu og sjálfbærni. Fyrir mér er mjög mikilvægt að geta beint sköpunarþörf minni í margar áttir, og fer það oft eftir skapi hvort henni sé miðlað í gegnum hönnun, myndlist eða tónlist.”

 “Kyrr” er eitt af nýrri verkum Kristínar þar sem leikið er með að færa hefðbundin mótív kyrralífsmynda í nýjan búning. Verkið er unnið með stafrænum aðferðum en byggir á tilraunum með samspil málverka og mynstraðs textíls.

Sýningin stendur yfir dagana 19.08. – 02.09. í Epal Gallerí, Laugavegi 7.