Smári eftir Pétur B. Lúthersson

Pétur B. Lúthersson er húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt. Hann hefur árum saman fengist við hönnun á húsgögnum og öðrum nytjahlutum. Hann hannaði meðal annars STACCO stólinn sem hefur verið á markaði yfir í 30 ár og verið seldur í yfir 200.000 eintökum.

 

Pétur hefur hlotið margar hönnunarviðurkenningar fyrir hönnun sína og nýlega kom á markað sófinn Smári, hannaður af Pétri og framleiddur af Bólstursmiðjunni. Smári, er einnig fáanlegur sem stóll, 2ja sæta og 3ja sæta og fæst í Epal.

Við slógum á þráðinn til Péturs og spurðum hann út í hönnunina.

Segðu okkur aðeins frá Smára? Smári er hugsaður bæði fyrir stofnanir jafnt sem heimili. Lagið á þeim er þannig að hægt er að raða þeim saman á mismunandi máta og henta þeir því vel til dæmis í móttöku á hóteli og aðrar biðstofur.

Hægt er að velja áklæði og lit á sófann og einnig er hægt að fá hann í leðri. Þetta eru mjög vandaðir sófar og öll vinnubrögð mjög vönduð, grindin er gerð úr krossvið og besta gerð af svampi sem er kaldpressaður notaður í sætin. Það er mikil mýkt í sætunum og gormarnir gefa sig ekki.

Hvað er á teikniborðinu hjá þér núna? Ég hef verið að teikna húsgögn fyrir Bólstursmiðjuna ásamt öðrum sérverkefnum. Ég teikna til dæmis fundarborð fyrir ráðstefnur.

Áttu þér uppáhaldshönnuð? Ég held ákaflega mikið upp á Jörgen Kastholm sem er danskur hönnuður og teiknaði mikið húsgögn fyrir stofnanir.

Þessir gömlu, Hans Wegner, Børge Mogensen og Arne Jacobsen voru líka allir frábærir hönnuðir.