Íslensk hönnun frá Paper Collective

Danska hönnunarmerkið Paper Collective kynnti á dögunum glæsilega vorlínu sína sem inniheldur nokkur verk eftir íslenska listamenn og hönnuði. Verkin sem um ræðir eru vinningsverk úr samkeppni sem haldin var sumarið 2022 á vegum Epal og Paper Collective. Útkoman var einstakt úrval af verkum eftir íslenska hönnuði, ljósmyndara og listamenn og eru nú vinningsverkin framleidd af Paper Collective og verða seld í Epal.
Fyrsta sætið hlaut Berglind Rögnvaldsdóttir með verkin Nature is Female og Bubble Gum. Annað sætið hlaut Hjörtur Matthías Skúlasson með verkið Dansari og þriðja sætið hlaut Kristín Sigurðardóttir með verkið Kyrr.
Gaman er að segja frá því að Paper Collective hélt áfram samstarfi við Kristínu Sigurðardóttur eftir samkeppnina og hefur hún nú hannað tvö verk til viðbótar sem eru hluti af nýrri vorlínu Paper Collective sem er væntanleg.
Paper Collective framleiðir plaköt eftir eftirsótta grafíska hönnuði, teiknara og listamenn sem koma frá öllum heimshornum og rennur hluti af hverju seldu plakati til styrktar góðgerða. Paper Collective er með það markmið að leiðarljósi að list sé fyrir alla og einnig að góð hönnun geti gefið af sér. Árið 2020 hófu þau byggingu á skóla í Taplejung í Nepal sem núna 400 börn njóta góðs af og var verkefnið fjármagnað að fullu með sölu á Paper Collective veggspjöldum um allan heim. Næsta góðgerðarverkefni er að styrkja WWF Waste to Value verkefnið sem berst gegn plastmengun í Kenýa, Afríku, ásamt því að útvega störf og stuðla að auknum hagvexti á staðnum.
Paper Collective er með sjálfbæra framleiðslu sem fer öll fram í Danmörku og er aðeins notast við hágæða FSC vottaðan pappír og eru þeir einnig með Svansmerkið. Verkin frá Paper Collective eru afar fjölbreytt og því ættu allir að geta fundið eitt við sitt hæfi.
Epal er söluaðili Paper Collective á Íslandi og er hægt að skoða úrvalið hér.