HÖNNUNARMARS: SIGRÚN JÓNA NORÐDAHL

Sigrún Jóna Norðdahl er nýútskrifaður keramikhönnuður frá University of Cumbria í Englandi en þar áður lauk hún Mótun í Myndlistarskólanum í Reykjavík. Í ár mun Sigrún taka þátt í sýningu Epal á Hönnunarmars og er hún mjög spennt fyrir þeim viðburði. “Ég lít á þennan viðburð sem alveg frábært tækifæri til þess að koma vöru minni á framfæri í alveg frábærum hópi hönnuða. Innblástur minn kemur að miklu leyti frá mínu daglega umhverfi og því hvernig ég skynja það. Ég er frekar forvitin að eðlisfari og næm á umhverfi mitt og er alltaf eitthvað að spá og spekúlera. Ég hugsa mikið um það samband sem við eigum við hluti í kringum okkur og hvort hlutir geti ekki bæði verið fallega hannaðir en á sama tíma haft eitthvað hlutverk í að tengja okkur betur við umhverfi okkar. Notagildi er mér einnig mjög mikilvægt og hvernig það tvinnast saman við fagurfræði hlutarins, það er ekki endilega svo einfalt að láta þessa tvo eiginleika mætast þannig að útkoman sé góð en þegar vel tekst til er það svo spennandi.”

_DSC4158

Línan sem Sigrún sýnir í Epal nefnist Handle It og samanstendur af skálum, diskum og ílátum úr postulíni sem ætluð eru til framreiðslu á mat. Handföng spila stórt hlutverk á sumum hlutanna og þau ásamt sérstöku útliti kannanna hafa það að markmiði að hleypa samræðunum af stað við matarborðið og hvetja matargesti til þess að eiga meiri samskipti við hvorn annan við matarborðið.

_DSC4224 _DSC4215

Sigrún stefnir ótrauð áfram í þessum geira og er með ýmislegt á prjónunum má þar meðal annars nefna samsýningu á Skriðuklaustri auk þess sem hún er nú þegar farin að leggja drög að nýjum hlutum sem hún byrjar að vinna að um leið og Hönnunarmars líkur.

Hönnunarmars í Epal hefst með opnunarpartý þann 11. mars frá kl. 17-19. Viðburðinn á facebook má sjá -hér. 

Vertu velkomin á Hönnunarmars í Epal.