HÖNNUNARMARS: POSTULÍNA

Draumur um vor.

Eftir erfiðan vetur dreymir okkur vor og við þráum græna litinn í tilveruna. Upp í huga Postulínu koma pottaplöntur uppvaxtaráranna þegar slíkar var að finna á hverju heimili. Mikilvægt var að verða sér úti um lífvænlegan afleggjara. Hveragerði reyndist vel, þaðan best að fá græðlingana og þar var líka Eden, ís, páfagaukar, apar og skrautlegustu blómin.

Í unglingshuganum kviknaði áhugi á pottaplöntum, þessum harðgerðu heimilsvinum sem gáfu lífinu lit, jafnvel um miðjan vetur. Þá skipti engu hvort maður ólst upp norðan eða sunnan heiða.

Með vorþránni kviknar líka nostalgían, sem tekur á sig form hengipottar með fallegri plöntu. Plönturnar hreinsuðu heimilisloftið og léttu lund, það er margsannað.

11061721_10153107180584857_1741324917033460233_n

Blómapottar Postulínu eru nýlegir en síðan hafa á síðustu dögum sprottið út úr ofninum þessi litlu krútt – litlir græðlingar af ættlegg stór pottanna upplagðir fyrir afleggjarana eða kryddjurtir og kaktusa. Eins og allt annað frá Postulínu þá er hver hlutur sérstakur. Allt er handrennt af alúð og hver gripur á sér sinn karakter. Veldu þér pott undir uppáhalds blómið þitt. Ræktaðu garðinn þinn.

12887_10153107180674857_2430728304168157121_n 11045294_10153107180989857_5617098776086296278_n11013094_10153107180319857_5764312903540693434_n

Postulína er samstarfsverkefni Guðbjargar Káradóttur leirkerasmiðs og Ólafar Jakobínu Ernudóttur hönnuðar.

Guðbjörg Káradóttir fæddist í Reykjavík árið 1968.
Lauk námi við keramikdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 og kennaranámi við Listaháskóla Íslands árið 2002. Er í dag sjálfstætt starfandi leirkerasmiður og myndmenntakennari við Laugalækjaskóla og Myndlistaskólskólann í Reykjavík.

Ólöf Jakobína Ernudóttir fæddist á Akureyri árið 1969. Fór í hönnunarnám til Ítalíu og útskrifaðist sem innanhússarkitekt frá Istituto superiore di architettura e design í Mílanó árið 1996. Er í dag sjálfstætt starfandi hönnuður en vinnur einnig sem stílisti og blaðamaður hjá tímaritinu Gestgjafanum.

11044606_10153107180169857_6624450511740701247_n

Postulína sýnir á Hönnunarmars í Epal sem hefst með opnunarpartý þann 11. mars. Viðburðinn á facebook má sjá -hér. 

Vertu velkomin á Hönnunarmars í Epal