HÖNNUNARMARS Í EPAL: MARÝ

HönnunarMars í Epal stendur yfir dagana 23.-26.mars, kynnið ykkur endilega opnunartíma og sýnendur á facebook viðburðinum okkar: https://www.facebook.com/events/1825393947677990/

Við sýnum í ár áhugaverða hönnun eftir fjölbreyttan hóp hönnuða sem eiga það sameiginlegt að hafa skarað fram úr á Íslandi og erlendis. Epal hefur haft að leiðarljósi frá stofnun árið 1975, að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi og hluti af því er þátttaka í HönnunarMars.

Marý Ólafsdóttir vöruhönnuður býr og starfar í Stokkhólmi. Aðaláherslur Marý sem hönnuður er að hvetja fólk til umhugsunar á umhverfinu og sýna því aukna virðingu. Þar af leiðandi er hver vara hönnuð með það í huga og með áherslu á sjálfbærni, náttúrlegan efnivið og hefur hver vara sögu að segja. Sjá nánar:​ ​www.mary.is

Keilir er handgerð skopparakringla sem hvetur til leiks hjá ungnum sem öldnum. Hún minnir á náttúruna, ýtir undir einfaldleikann og kyrrðina sem felst í að njóta augnabliksins. Einkenni skopparakringlunnar er að börkur trésins er skilinn eftir á ystu rönd hennar. Handverkið og uppruni efnisins verður áberandi fyrir vikið og nálægðin eða tilfinningin fyrir efninu verður sterkari. Skopparakringlan er rennd úr íslensku birki frá Kjarnaskógi og Hallormsstaðarskógi af 79 ára gömlum handverksmanni vestur af fjörðum.

Keilir er fyrsta verkefnið úr nýrri línu sem ber heitið Heima, en verkefnið gengur út á samstarf hönnuða, handverksfólks og lítilla framleiðsluaðila á Íslandi. Allar vörurnar eru unnar úr íslenskum náttúrulegum hráefnum. Hvert verkefni sækir innblástur í Íslenska náttúru og lifnaðarhætti með ferskri nálgun.