HÖNNUNARMARS Í EPAL: HRING EFTIR HRING

HönnunarMars í Epal stendur yfir dagana 23. – 26. mars.

Við sýnum í ár áhugaverða hönnun eftir fjölbreyttan hóp hönnuða sem eiga það sameiginlegt að hafa skarað fram úr á Íslandi og erlendis. Epal hefur haft að leiðarljósi frá stofnun árið 1975, að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi og hluti af því er þátttaka í HönnunarMars.

Hring eftir hring er íslenskt skartgripafyrirtæki sem var stofnað árið 2009 í kjölfar þess að Steinunn Vala, einn af eigendum Hring eftir hring, skapaði Laufahringinn sem naut mikilla vinsælda hér heima. Frá þeim tíma hafa fleiri skartgripalínur litið dagsins ljós, hannaðar af Steinunni Völu sem og öðrum hönnuðum, listamönnum og handverksfólki. Þennan HönnunarMars sýnir Hring eftir hring Flugur sem eru hugarsmíði Steinunnar Völu og Helgu Páleyjar myndlistakonu. Þar á meðal má finna hálsmen úr glerperlum, fjöðrum og þræði sem eru innblásin af þeim gjörningi þegar manneskja veiðir fisk. Einhverjir gætu séð móta fyrir gapandi munni fisksins og beitu veiðimannsins í hálsmenunum.

Skartgripalínan sem nú er sýnd í Epal er í raun viðbót og spuni upp úr skartgripalínu sem Hring eftir hring hefur þegar kynnt til leiks og sett á markað og heitir Flugur. Flugurnar eru handhnýttar á sama hátt og veiðiflugur og bera hver um sig eigið nafn og sinn eiginleika, enda einstakar hver og ein, eins og hver og einn.