Hönnunarmars 2020 // Gömul klassísk sem rís upp

Epal tekur þátt í HönnunarMars tólfta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Stóll Helga Hallgrímssonar sem endurgerður er af Finn Juhl verður sýndur í Epal á Hönnunarmars.

Helgi Hallgrímsson var einn virtasti húsgagnaarkitekt tuttugustu aldar. Á Hönnunarmars 2020 frumsýnir Epal endurgerð á íslenskum stól eftir Helga Hallgrímsson, sem smíðaður er af hinu virta, danska húsgagnafyrirtæki House of Finn Juhl.

Árið 1960 sýndi Helgi Hallgrímsson þennan forláta armstól og fótskemil á sýningu Félags húsgagna- og innanhúsarkitekta og nú 60 árum síðar hefur House of Finn Juhl hafið framleiðslu á stólnum.

Einstök íslensk hönnun í númeruðum eintökum. 

 

GÖMUL KLASSÍSK RÍS UPP

 

Helgi Hallgrímsson er ekki nafn sem allir þekkja. Kannski var það hógværðin í þessum lágstemmda manni sem gerði það að verkum að nafn hans hefur ekki skinið jafn hátt og starfsbræðra hans og kollega. Það er alla vega ljóst að það er ekki skorti á hæfileikum eða gjörvuleika um að kenna.

 

Nú hefur hið virta húsgagnafyrirtæki Finn Juhl, sem sérhæfir sig í vandaðri smíði á danskri hönnun, ákveðið í samstarfi við Epal að endurgera stól og skemil sem Helgi hannaði fyrir sýningu Félags húsgagna- og innanhúsarkitekta árið 1960 og verður stóllinn „endur-frumsýndur“ á Hönnunarmars.

-En hver var Helgi?

„Pabbi var alltaf svo hógvær og talaði ekki mikið um sín störf. Ég áttaði mig ekki almennilega á hversu vel þekktur og virtur hann væri af kollegum sínum fyrr en að honum látnum,“ segir Rut Helgadóttir, dóttir Helga, sem rifjar upp að hans sé til að mynda getið í ítalskri hönnunarbók um sögu evrópskrar hönnunar á tuttugustu öld.

 

„Hann fæddist á Patreksfirði árið 1911 en fór 16 ára til náms í húsgagnasmíði Iðnskólann í Reykjavík. Eftir að hafa klárað sveinsstykkið sigldi hann út með Dronning Alexandria og hóf nám við Listiðnaðarskólann í Kaupmannahöfn. Hann lauk þar prófi sem húsgagnaarkitekt árið 1938 en var jafnframt um tíma við nám í Þýskalandi. Í Danmörku var hann í góðum félagsskap, en meðal vina hans og kunningja voru Hans Wenger og Børge Mogensen sem eru með þekktustu hönnuðum heims í dag og áttu þátt í að móta danska hönnun. Þetta voru góðir vinir sem héldu sambandi og ég á til að mynda fallegt bréf frá Börje þar sem hann þakkar gjafirnar til ungs sonar síns,“ segir Rut og bendir á að Helgi hafi þannig verið beintengdur inn í hina miklu upprisu danskrar hönnunar um miðbik síðustu aldar sem flestir þekkja.

 

Rut lýsir föður sínum sem einstökum séntílmanni og miklum heimsmanni, sem er svolítið sérstakt fyrir mann sem er alinn upp í barnmergð á Patreksfirði og það af fátæku fólki. Það sama hefði mátt segja um móður hennar, Svövu Vigfúsdóttur, en þau voru bæði afar smekklegt fólk með auga fyrir hönnun. Helgi og Svava áttu tvö börn, Rut og Hallgrím. „Pabbi las mikið og var hæglátur en gat þó verið hrókur alls fagnaðar. Hann var mjög skarpur og með góðan húmor en tranaði sér ekki fram. Hann var ástríðufullur baráttumaður á sinn hæga hátt, en gat líka verið svolítið stífur ef hann vissi að hann hefði rétt fyrir sér.“

 

Helgi starfaði alla tíð sem húsgagna- og innanhússarkitekt, en samhliða því miðlaði hann þekkingunni áfram og kenndi teikningu og stílfræði við Iðnskólann í Reykjavík frá 1940-1985, þar af yfirkennari í 16 ár. „Hann hvatti þar marga efnilega arkitekta til að fara út í frekari nám. Hann skrifaði einnig mikið og hélt erindi víða, honum var í mun að koma húsgagnahönnun og arkitektúr á stall. Hann var mjög virkur í félagsmálum, starfaði engi með Oddfellowreglunni í Reykjavík og Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík auk þess að vera einn af stofnendum Félags húsgagnaarkitekta, síðar Félags húsgagna- og innanhússarkitekta, og var heiðursfélagi þar. Hann var virtur fagmaður af sínum félögum.“

Hönnun Helga
„Pabbi tók að sér mörg áhugaverð og skemmtileg verkefni sem vöktu athygli, hann innréttaði til að mynda innréttingar og húsgögn fyrir Landsbankann, Hæstarétt og Forsetaembættið. Hann tók þátt í ýmsum samsýningum ásamt Sveini Kjarval og öðrum hönnuðum sem blómstruðu á þessum sama tíma. Hann hafði næma tilfinningu fyrir hlutföllum og að sitja rétt, svo stólarnir voru þægilegir“

Rut segir heimili fjölskyldunnar að Sigtúni 37 hafa verið glæsilegt og einstaklega vel hannað en faðir hennar sá um allar innréttingarnar. Hann hafi þá gjarnan hugað að snjöllum lausnum til að auðvelda húsmóðurinni verkin. „Allt var svo fallegt og vel gert. Hann var mjög uppfinningasamur og var mikið í mun að leysa mál fyrir húsmæður. Í eldhúsinu voru skáparnir til að mynda með rimlarúllum, svo þú værir ekki að reka höfuðið í skápahurðirnar þegar þær opnast, það var straubretti sem datt út úr skáp og Electrolux hrærivélin var í sérhönnuðum skáp, föst á bretti.“

 

 

DANSKIR MEISTARAR ENDURGERA STÓL HELGA

 

Árið 1960 sýndi Helgi Hallgrímsson forláta armstól og fótskemil á sýningu Félags húsgagna- og innanhúsarkitekta. „Faðir minn, Garðar Gíslason, var þá ungur maður í Menntaskólanum í Reykjavík.  Mætti hann á sýninguna og rak strax augun í stólinn góða.  Þar sem hann hafði ekki getu til að kaupa stólinn var það honum til happs að móðir hans, sem var með í för, ákvað að kaupa stólinn og gefa honum og hefur stóllinn verið í stöðugri notkun í 60 ár,“ segir Kristján Garðarsson, arkitekt, sonur Garðars, og hýsir nú gripinn.

 

„Með þessum kaupum hvarf stóllinn sýn flestra, og lenti þannig má segja í glatkistunni, alla vega gagnvart umheiminum.  Þó er líklegt að til sé annað eintak, klætt ullaráklæði, en ekki er vitað hvort svo sé og þá hvar hann er niðurkominn – en hann kemur kannski í ljós núna þegar stóllinn hefur verið endurgerður!“

Hluti af dönsku bylgjunni

Helgi var hluti af þeim straumum og stefnum sem voru í skandinavískri hönnun um miðja öldina, enda menntaður í Danmörku. „Það má til að mynda sjá talsverð líkindi með stólnum hans Helga og The France Chair sem Finn Juhl teiknaði fyrir danska húsgagnaframleiðandann France & Son. Mætast í stólunum tveim næm tilfinning fyrir rými og hvernig húsgagn tekur sér stöðu sem skúlptúr – á sama tíma og þessi fljótandi form eru vandlega mótuð til að styðja við líkamann,“ segir Kristján og fullyrðir að Helgi eigi mikið inni sem hönnuður.

„Í spjalli við Eyjólf Pálsson fyrir nokkrum árum nefndi ég að það væri gaman að gera nokkur eintök af stólnum: Bæði þætti mér ábyrgðarhlutur að hugsanlega væri einungis til eitt eintak og hyggilegt væri að gera alla vega varaeintak – og svo ekki síður að mér þætti við hæfi að varpa á ný ljósi á Helga sem hönnuð. Eyjólfur ræddi þetta við Kjartan son sinn, framkvæmdastjóra Epal, og tóku þeir vel í þessa hugmynd þó fjárhagsleg áhætta lægi öll þeirra megin. Eyjólfur stakk upp á vinum sínum hjá House of Finn Juhl, þeim Ivan Hansen og og Henrik Sorensen – fáum væri betur treystandi til að endurgera stólinn á sem vandaðastan hátt,“ útskýrir Kristján og segir að Ivan og Eyjólfur hafi komið nokkrum sinnum og skoðað stólinn hjá sér, prófað og velt fyrir sér. „Fór loks svo að stóllinn var sendur utan og mældur allur upp.  Eina sem ég óskaði í þeim efnum var að hann yrði ekki losaður upp á neinn hátt og héldi alveg upprunalegri samsetningu. Nú er hann kominn aftur heim í stofu – og að auki 25 tölusett eintök sem þeir feðgar í Epal hafa hjá sér.  Það verður gaman að fylgjast með viðbrögðum við stólnum, ég tel alla vega að Helgi Hallgrímsson eigi mikið inni sem hönnuður.“

 

Vandaður gripur

Armstóllinn og fótskemillinn sem Helgi Hallgrímsson teiknaði voru smíðaðir af Friðriki Þorsteinssyni og bólstraðir af Ásgrími P. Lúðvíkssyni.  „Það má segja að þar hafi verið valinn maður í hverju rúmi;  geysifalleg teikning sem hlýtur að hafa verið flókið að koma í þrívítt form, klappað í palisander harðvið og ekki síður vandasamt að bólstra.  Ásgrímur náði t.d. að bólstra bakið þannig að hann saumaði leðrið aftan á laust bakstykkið, þá var bakið fest á grindina og svo saumaði hann framhlutann.  Þannig sjást engar festingar og er nánast ógjörningur að hugsa sér að framleiða stól svona í dag.  Enda er þetta módelstykki,“ segir Kristján Garðarsson, arkitekt.