Heima er bezt – nýtt vegglistaverk eftir Arnór Kára við Epal á Laugavegi

Arnór Kári er listamaðurinn á bakvið nýtt og stórt vegglistaverk við verslunina Epal á Laugavegi 7. Við tókum hann tali og ræddum um listaverkið sem ber heitið Heima er bezt. Við hvetjum ykkur til að koma við í Epal á Laugavegi og sjá verkið með eigin augum. Það gefur miðbænum svo sannarlega lit.

Hver er Arnór Kári?

Ég er alls konar. Ég er sólskinið, ég er tunglmyrkvinn, ég er lægðin, ég er þokan og öldugangurinn, mosinn og hraunið. Ég geri mitt besta að tengja við og elta hreyfingu alheimsins og færi mig gjarnan í þá átt sem hann leiðbeinir mér. Við höfum öll upplifun af því að hreyfast gegn strauminum, gegn innsæinu og eigin sannfæringu, með tilheyrandi niðurstöðum og því legg ég áherslu á hið þveröfuga. Fyrir mér er lykilatriði að vera tengdur, hvernig sem hver og einn finnur sína leið til þess, og finna flæði lífsins og fljóta meðfram því. Þar með talið er bæði súrt og sætt, því við þroskumst ekkert sem sál án þess að komast í gegnum það súra líka.

Hvernig list skapar þú helst?

Á sumrin er ég fyrst og fremst í vegglistinni en samhliða því teikna ég mikið, hvort sem það er fyrir ákveðin verkefni eða ég að safna í sarpinn fyrir einkasýningar. Ég legg líka mikla áherslu á tónlistina. Held reglulega tónleika og hef gefið út þónokkrar plötur. Þar geng ég undir nafninu Andartak og geri raftónlist af ýmsum toga, bæði fyrir heilaleikfimi og tryllidansinn.

Hvaðan fékkst þú innblástur fyrir verkið?

Innblásturinn kom úr ýmsum áttum og var í gegnumgangandi þróunarferli á meðan á vinnunni stóð. Ég lagði upp með grófa hugmynd sem kom til mín eftir að ég skoðaði vegginn og nærumhverfi þess. Ég verð oftast innblásinn af umhverfinu og tek inn í undirmeðvitundina smáatriði eins og hreyfinguna á staðnum, liti og önnur “ósýnileg” smáatriði og skoða það hvernig hægt er vinna með þessi atriði á veggfletinum. Markmiðið er að ná góðu samlífi við umhverfið. Ég vissi strax að refurinn fengi kastljósið en umhverfið og litapallettan fékk að þróast eftir því sem vatt upp á heildarmyndina. Sem dæmi má nefna hvernig tréð lengst til vinstri sveigjir upp í mót og sameinast glugganum að ofan. Hreyfingin heldur svo áfram með gulu ölduna sem endurspeglar gangandi umferð fram og tilbaka inn í sundið. Himininn var fenginn að láni úr raunheimum á þriðja degi og bróðir minn átti hugmyndina að því að breyta rafmagnskassanum í lítið hús. Þetta snýst allt um að vera opinn fyrir breytingum á upphaflegu plani og vera stanslaust á varðbergi eftir því sem alheimurinn er að sýna manni.

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?

Að sjálfsögðu eru einhver megin einkenni á listaverkunum mínum en ég upplifi mig sem hálfgert kameljón þegar kemur að listsköpuninni. Því staður, stund, vegg-áferð, kúnni og húseigendur veita mér fjölbreyttan innblástur. Litapallettan er breytileg, ég sem einstaklingur er sífellt að breytast, viðfangsefni og stílbrögð að sama skapi. Mér finnst mikilvægt að vera liðlegur sem listamaður, því ef allar myndir væru áberandi einsleitar, þá yrði heimurinn eins og gríðarstór lystigarður með þrjár tegundir plantna.

Hvernig kom þetta verk til og ber það eitthvað heiti?

Kjartan Páll Eyjólfsson hjá Epal frétti af mér í gegnum samstarfsfélaga sinn Ámunda Sigurðsson og hafði samband við mig varðandi þennan veggflöt sem starir beint inn um stóran glugga í búðina við Laugaveg og þeim datt í hug að það væri flott að fá þarna listaverk sem myndi gleðja bæði vegfarendur, búðarskoðendur og öðrum öndum af annari líkamsgerð. Þetta var sérlega tilvalin tímasetning þar sem menningarnótt var handan við hornið með tilheyrandi fjölda fólks og húllumhæ. Ég fékk eina glögga athugasemd um daginn; að listaverkið minnti á krosssaum sökum þess hvernig bárujárnið bjagar útlitið á myndefninu. Út frá þessu hef ég ákveðið á skýra myndina ‘Heima er bezt’.