Atlason Studio hlýtur virtustu hönnunarverðlaun Bandaríkjanna, National Design Awards 2023

Í dag var tilkynnt að íslenska hönnunarstofan Atlason Studio hafi hlotið verðlaun í flokki vöruhönnunar á stærstu og virtustu hönnunarverðlaunum Bandaríkjanna, Cooper Hewitt National Design Awards 2023.

Verðlaunin eru veitt árlega af Cooper Hewitt hönnunarsafninu, hönnunarhluta Smithsonian stofnunarinnar, og voru stofnuð í samstarfi við Hvíta húsið. Í kjölfar tilkynningar á vinningshöfum hefst þétt kynningardagskrá tengd vinningshöfum sem ætlað er að auka vitund almennings í Bandaríkjunum um áhrif hönnunar í daglegu lífi. Sú dagskrá nær hámarki í Hönnunarviku (e. National Design Week) í október en þá fer formleg afhending verðlaunanna fram við mikla athöfn.

Íslensk hönnun í New York

Atlason Studio var stofnuð í NY árið 2004 af Hlyni Vagni Atlasyni með nýstárlega og frumlega nálgun að markmiði: „Við erum í skýjunum með þessar fréttir. Þetta er auðvitað einstakur heiður en hönnunarverðlaunin eru þau virtustu og þekktustu hér í Bandaríkjunum, og þó víðar væri leitað. Þá er sérstaklega ánægjulegt að fá viðurkenningu frá öðrum fagaðilum,“ segir Hlynur sem flutti upphaflega til Bandaríkjana til að stunda nám við Parsons School of Design í New York.

Óhætt er að segja að Atlason Studio hafi vaxið og dafnað frá stofnun þess árið 2004 en stofan hefur átt í samstarfi við mörg af þekktustu fyrirtækjum og vörumerkjum heims, t.d. Design Within Reach, Museum of Modern Art, Heller, L.Ercolani, Johnson & Johnson, L‘Oreal, Microsoft, IKEA, X-box og Stella Artois.

Atlason loks til Íslands

Hingað til hafa vörur Atlason Studio ekki fengist á Íslandi en það stendur nú til bóta þegar húsgögn hans verða hluti af vöruúrvali í Epal: „Ég hef þekkt Hlyn lengi og fylgst náið með hans magnaða ferli frá því hann tók sín fyrstu skref á hönnunarbrautinni í Parsons þar til í dag, þegar það má segja að hann hafi sigrað hönnunarheiminn í Bandaríkjunum! Við höfum haft þann heiður að sýna vörur hans í Epal á HönnunarMars og nú er það okkur sönn ánægja að ganga skrefinu lengra og bjóða vörur eftir hann til sölu hér í Epal í haust,“ segir Eyjólfur Pálsson, stofnandi Epal.