HönnunarMars : Morra

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis, enda hefur verslunin haft það að leiðarljósi frá stofnun að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi.

Morra er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars og sýnir nýjar vörur. 

Fyrsta lína Morra kom út fyrir jól og samanstóð af silkislæðum með myndskreytingum úr íslenskri flóru. Hið alþjóðlega „blómaprent“ var heimfært með því að nota íslensk smáblóm í bland við harðeskjulegar jurtir og slæðinga sem mynduðu skrautlega blómasveiga. Fyrir Hönnunarmars í ár verður þetta myndmál þróað áfram í prentverkum í takmörkuðu upplagi sem verða sýnd ásamt slæðunum.

Signý Þórhallsdóttir er hönnuðurinn á bakvið Morra. Signý útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 og hefur síðan þá unnið hjá ýmsum hönnuðum í London, þ.á.m. Vivienne Westwood, þar sem hún starfaði í þrjú ár við að hanna fatnað og munstur. Signý leitast við að starfa á mörkum fata-og prenthönnunar, og vinnur nú að eigin verkefnum á Íslandi, þar sem hún sækir innblástur í mynd- og nytjalist, tískusögu og íslenska náttúru.

HönnunarMars í Epal stendur yfir dagana 28. – 31. mars.