Flott grein hjá Mörtu Maríu á Pressunni

Steinunn Vala verður fyrir barðinu á eftirhermum: Fólk stælir hönnun hennar og selur í stórum stíl

Steinunn Vala Sigfúsdóttir hannar skartgripalínuna Hring eftir Hring.

Steinunn Vala Sigfúsdóttir hefur gert það gott með skartgripalínu sína Hring eftir Hring. Um leið og línan kom á markað varð hún feikilega vinsæl. Ekki leið á löngu þar til aðrir aðilar voru farnir að apa eftir hönnun Steinunnar Völu.

Hún segist hafa tekið eftirlíkingunum mjög nærri sér til að byrja með. Verst þykir henni þegar fólk kemur með hringa eftir aðra og vill fá að skipta þeim hjá henni.

Skartgripir í línunni Hring eftir Hring eru búnir til úr leir. Hringar og eyrnalokkur eru mest áberandi í línunni og koma þeir í mörgum fallegum litum.

Forsaga málsins er sú að Steinunn Vala, sem er verkfræðingur að mennt, ákvað að söðla um og fór í Prisma nám á vegum Listaháskóla Íslands og Bifrastar. Í náminu kviknaði hugmynd að skartgripalínunni Hring eftir Hring. Línan sló strax í gegn þegar hún kynnti hana fyrir skólafélögum sínum í mars 2009.

Steinunn Vala segist fyrst hafa orðið vör við eftirlíkingarnar fyrir síðustu jól. Nokkrum mánuðum áður hafði hún reyndar rekist á heimasíðu sem seldi svipaða vöru og hennar. Síðan kom að því að fólk fór að koma á vinnustofu hennar til að skipta hringum sem það taldi að væru eftir hana. Þegar hún sagðist ekkert kannast við skartgripi fólksins varð það mjög undrandi.

Skartgripirnir frá Hring eftir Hring koma í fallegum kössum með myndum á. Steinunn Vala lenti í því um daginn að fá konu á vinnustofu sína sem vildi fá umbúðir hjá henni því hún sagði að það hafi gleymst að setja mynd inn í kassann. Þegar Steinunn Vala sagði henni að hringurinn væri ekki eftir hana varð hún hissa og þrætti við hana.

Ég varð alveg miður mín þegar ég rakst á fyrstu heimasíðuna sem selur eftirlíkingar eftir hönnun minni. Mér fannst eins og fólk væri að stela frá mér enda er ég búin að leggja allt mitt í Hring eftir Hring. Það er spælandi að leggja mikinn metnað í hönnun, enda kostar fullt af peningum að vera í vöruþróun. Á einhverjum tímapunkti hef ég hugleitt að hætta þessu.

Steinunn Vala segir að það sé erfitt starf að hafa afskipti af fólki sem stælir hönnun. Hún bendir á að til séu reglur um hönnunarvernd og það sé ekki hægt að banna fólki að búa til hluti fyrir sig. Það sé hinsvegar óheimild að hagnast á því.

Vörurnar frá Hring eftir Hring eru seldar í Epal, verslun Bláa Lónsins, Sirku á Akureyri, Sveitabúðinni Sóley og í Kraum.

http://www.pressan.is/VeroldMortuMariu/Lesagrein/steinunn-vala-verdur-fyrir-bardinu-a-eftirhermum-folk-staelir-honnun-hennar-og-selur-i-storum-stil