ÍSLENSK ÞRÍVÍDDARVERK

Við höfum hafið sölu á þrívíddarplakötum og fást þau í Epal Hörpu.

  Ingvar Björn Þorsteinsson er listamaðurinn á bak við verkin og eru þau samofin listviðburðinum Largest Artwork sem stóð yfir fyrr á þessu ári. Ingvari er hugleikið að sameina krafta samfélagsins og vekja vitund okkar til stuðnings þeim sem minna mega sín, líkt og þegar hann vann listaverk til styrktar UNICEF.

Þetta hófst allt þegar að þúsundir manna frá öllum heimsins hornum tóku þátt í gegnum Facebook að skapa stærsta listaverk í heimi úr litlum táknum -Largest Artwork in the World sem var til styrktar UNICEF. Núna hafa þessi litlu tákn fengið nýtt hlutverk og eru partur af seríu af þrívíddarplakötum í Pop Art stíl.


Á morgun, laugardag, verður Ingvar Björn staddur í Epal Hörpu og áritar verkin á milli kl.13-15.

Á sama tíma er einnig Jólamarkaður PopUp verzlunar sem stendur frá kl.12-18 og hvetjum við sem flesta til að kíkja við í Hörpu.

Epal færir Listasafni Reykjavíkur gjöf

Listasafn Reykjavíkur tók í gær við veglegri gjöf frá Epal en um er að ræða 25 stóla eftir danska hönnuðinn Arne Jacobsen, Sjöuna sem fyrst kom á markað árið 1955. Stólarnir eru viðbót við 80 stóla sömu gerðar sem er að finna í safninu.

Stólarnir eru kærkomin viðbót fyrir Listasafn Reykjavíkur sem heldur reglulega stóra viðburði á sínum vegum. Nú hafa fleiri gestir safnsins tækifæri til að njóta Sjöunnar eftir Arne Jacobsen.

„Reykjavíkurborg þakkar fyrir þessa höfðinglegu gjöf en hún sýnir þann góða hug sem Epal ber til safnsins. Eyjólfur Pálsson hefur allt frá upphafi lagt sig fram um að auka skilning og virðingu Íslendinga fyrir góðri hönnun. Þessir stólar, sem við tökum nú við, sóma sér afar vel innan um önnur verðmæti sem safnið geymir,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri sem tók við gjöfinni fyrir hönd safnsins.

„Listasafn Reykjavíkur er með í sölum sínum fjölda gæðastóla eftir Arne Jacobsen sem keyptir voru til safnsins á sínum tíma en þörf hefur verið fyrir fleiri stóla.  Með þessari gjöf vil ég gera safninu mögulegt að bæta við stólum sömu gerðar og uppfylla ströngustu skilyrði um góða hönnun, sem safnið væri annars ekki í stöðu til að gera,“ segir Eyjólfur Pálsson stofnandi Epal.