100 ára fæðingarafmæli Sveins Kjarvals

Í tilefni af því að eitthundrað ár eru liðin frá fæðingu Sveins Kjarvals miðvikudaginn 20. mars nk. mun Dr. Arndís S. Árnadóttir flytja fyrirlestur um verk hans og störf. Fyrirlesturinn fer fram í kirkju Óháða safnaðarins, Háteigsvegi 56 kl. 20 en Sveinn hannaði meðal annars kirkjubekkina í þessa fallegu kirkju.

Sveinn Kjarval (1919 – 1981) var sannkallaður frumkvöðull í húsgagna- og innanhússhönnun á Íslandi. Hann hannaði innréttingar fyrir Þjóðminjasafnið, bókasafnið á Bessastöðum, veitingahúsið Naustið og kaffistofuna Tröð svo eitthvað sé nefnt auk fjölda vandaðra húsgagna sem enn í dag eru eftirsótt. Hönnunarsafn Íslands á um fimmtíu muni eftir Svein og mun standa fyrir sýningu á ævistarfi hans seinna á árinu.

Fyrirlesturinn fer fram miðvikudaginn 20. mars kl. 20.00 og er í boði Hönnunarsafns Íslands.