Jórunnarhjörtu

Jórunnarhjörtun eftir Andreu Róberts eru nýlega komin í sölu hjá okkur og kosta þau 3.500kr. stk. Þau eru gerð sem virðingarvottur við Jórunni Brynjólfsdóttur sem rak Jórunnarbúð á horfi Skólavörðustígs og Klapparstígs.

Virðingavottur við magnaða konu

Af elliheimilinu Grund brunaði Jórunn Ragnheiður Brynjólfsdóttir 98 ára kaupmaður í leigubíl í vinnuna. Þessi afkomandi Hákarla-Jörundar athafnamanns fæddist í Hrísey þann 20. júní 1910. Jórunn gekk með verslunarbakteríuna frá barnæsku en hóf þó ekki störf við verslun fyrr en hún hafði lokið uppeldi barna sinna og sinnti þá verslunarstörfum til 75 ára aldurs. Endurkoma hennar á vinnumarkaðinn var tekin með stæl þegar hún ákvað að opna verslun 82 ára gömul. Verslunin fékk nafnið Jórunnarbúð sem seldi sængurfatnað og borðdúka í kærleiksríku umhverfi á horni Skólavörðustígs og Klapparstígs. Þar fengu viðskiptavinir gjarnan kærleika í kaupbæti í formi lítils hjarta sem hún leysti viðskiptavini sína gjarnan út með. Hér er verið að taka hugmynd Jórunnar lengra og klappa henni aðeins. Jórunn í Jórunnarbúð lést á Grund 21. nóvember 2008. Hjörtunum hefur öllum verið gefið nafnið Jórunn. Þau eru virðingavottur, gerð í minningu um þessa hversdagshetju sem ekki má gleymast.

Hjartalaga trúnaðarvinur

Efnið sem notað er í hjörtun er gardínur, dúkar og sængurföt eða það sem fékkst í Jórunnarbúð. Hjörtun eru hugsuð sem falleg gjöf bæði í gleði og sorg, fyrir allan aldur og kynin öll. Ekkert hjarta er eins en keðja er á þeim til að hengja það til dæmis á vegg, á korktöfluna eða jólatréið. Hjörtunum er komið fyrir, í anda Jórunnar, á blúndubeði í öskjunni og í botninum er miði sem segir frá Jórunni hjarta – þessum hjartalaga trúnaðarvini.