Gunnar Magnússon þekkja margir Íslendingar sem eitt af stóru nöfnunum í íslenskri hönnunarsögu. Hönnun Gunnars vakti mikla athygli á erlendri grundu og vann hann í samstarfi við nokkra af fremstu hönnuðum Dana eins og Borge Mogensen auk þess að ná góðum árangri í alþjóðlegum hönnunarsamkeppnum á sjöunda áratug síðustu aldar. Hann snéri með fjölskylduna aftur til Íslands árið 1964 þar sem hann stofnaði eigin teiknistofu og vann í fjóra áratugi að fjölmörgum verkefnum fyrir fjölskyldur og fyrirtæki, bæði hlutum og stærri verkefnum til dæmis fyrir Hótel Holt, Kennaraháskólann, Alþingi og banka.