NÝTT Í EPAL : HIMNESKIR HERSKARAR

Himneskir herskarar eru handverkstæði Páls Garðarssonar þar sem tálgað er í tré og unnið með pappír og vír.  Þar má finna fígúrur af ýmsu tagi. Epal hefur hafið framleiðslu á hreindýrum Himneskra herskara sem hönnuð voru árið 2005.

“Hvít hreindýrin spretta úr jarðvegi íslensks handverks þar sem alúð er lögð við hvert smáatriði. Þau eiga uppruna sinn að rekja í hugarheim Páls Garðarssonar, urðu til við eldhúsborðið og þangað sóttu þeir sem kynntust þeim fyrst. Hreindýrin eru brot af stærri heimi þar sem einfaldleiki og lágstemmd kímni eru leiðarstef. Seinna tók kliðmjúkur bjölluhljómur hreindýranna á móti þeim sem rötuðu á verkstæði Páls.”

Og nú hefst nýr kafli í ferðalagi hvítu hreindýranna, og eru þau fyrsta varan sem gefin er út af Hönnunarsjóði Epal.