HönnunarMars : Heiðdís Halla

Epal tekur þátt í HönnunarMars ellefta árið í röð með vandaðri sýningu á íslenskri hönnun. Að þessu sinni er athyglinni beint að fjölbreyttum hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og erlendis, enda hefur verslunin haft það að leiðarljósi frá stofnun að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi.

Heiðdís Halla er á meðal sýnenda í Epal á HönnunarMars. 

Grafíski hönnuðurinn Heiðdís Halla Bjarnadóttir sýnir hluta verka sinna af sýningunni FORM sem frumsýnd var í Listaskálanum að Brúnum í Eyjafirði í desember 2018.

Verkin voru upphaflega tvívíð tölvugrafíkverk hugsuð sem plaggöt sem síðan þróuðust yfir í handunnin þrívíð veggverk úr tré og textíl. Verkin eiga það sameiginlegt að ganga út á samspil fyrirfram ákveðinna forma og lita og bera engar vísanir, merkingu eða skilaboð. Þrívíðu verkin spretta af sama grunni og þau tvívíðu en uppfylltu löngun starfandi grafísks hönnuðar til að færa sig frá tölvunni og vinna líka með efnið í höndunum. Verkin tvinna á þann hátt saman hönnun, list og handverk og sér Heiðdís mikla möguleika í að þróa þrívíðu verkin áfram í efnisvali, stærð og sem nytjahluti.

Heiðdís Halla er fædd árið 1981 og uppalin á Egillstöðum. Hún hefur numið og starfað í París, Kaupmannahöfn og Reykjavík en er nú búsett á Akureyri þar sem hún á og rekur grafísku hönnunarstofuna DUO. Textíll hefur alltaf vakið áhuga Heiðdísar og nær oft að teygja sig inní hennar verk á einn eða annan hátt. Í hennar eigin verkum hefur hún þróað mjög persónulegan stíl þar sem tvívíddin í grafíkinni er færð yfir í dýpt textílsins.

Sýningin Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd stendur yfir alla helgina í Epal Skeifunni.