Ný sýning í Epal Gallerí – Galdurinn býr í glerungnum

Galdurinn býr í glerungnum – keramiksýning í Epal Gallerí

Í dag, laugardaginn 9. apríl opnar Daði Harðarson keramiksýningu í nýju galleríi verslunarinnar Epal, Laugavegi 7. Á sýningunni eru handrenndar skálar af ýmsum stærðum.
Skálarnar sem Daði sýnir eru úr postulíni og steinleir með glerungum sem eru meðal annars úr íslenskum gosefnum og íslenskum leir. Efni í leir og glerungunum bráðna saman við brennslu munanna í 1260-1300 °C. „Ég hef mikla þörf fyrir að ögra sjálfum mér. Í hvert skipti sem ég opna ofninn og skoða afraksturinn, hugsa ég um hvernig ég geti þróað mig áfram. Það kemur sífellt á óvart það sem í ofninum er, þó að ég hafi mjög góða þekkingu á samspili efnanna í leir og glerungum.“
Daði lærði keramik í Myndlista- og handíðaskólanum og í Skolen for Brugskunst í Kaupmannahöfn. Hann starfaði sem keramiker árin 1985-1991 en þá tók hann sér hlé og einbeitti sér að rekstri hönnunar- og útgáfufyrirtækisins Nýjar víddir. Hann segist hafa séð tækifæri haustið 2020 til að byrja aftur í keramikinu og að hann hafi ekki litið um öxl síðan.
Öll verkin eru unnin á verkstæði hans í Hafnarfirði.
Sýningin stendur til 1. maí og er opin á opnunartíma verslunarinnar.